Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 788. máls.

Þskj. 1194  —  788. mál.



Frumvarp til laga

um vinnumarkaðsaðgerðir.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Gildissvið og markmið.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um vinnumarkaðsaðgerðir.
    Með vinnumarkaðsaðgerðum er átt við vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem eru til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda.
    Atvinnuleitandi í skilningi laga þessara er hver sá sem sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
    Þá er lögum þessum ætlað að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
3. gr.
Yfirstjórn.

    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt lögum þessum.

4. gr.
Vinnumálastofnun.

    Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga þessara í umboði félagsmálaráðherra. Jafnframt annast Vinnumálastofnun önnur þau verkefni sem henni eru falin með sérlögum.
    Félagsmálaráðherra skipar forstjóra Vinnumálastofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á henni gagnvart ráðherra. Hann skal annast gerð starfs- og fjárhagsáætlunar stofnunarinnar og leggja hana fyrir stjórn hennar til samþykkis eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs.
    Vinnumálastofnun skal reka þjónustustöðvar á ákveðnum svæðum á landinu. Félagsmálaráðherra ákveður hvar þær skulu staðsettar að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar stofnunarinnar.
    Kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar vegna framkvæmdar á lögum þessum greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
    Félagsmálaráðherra getur með reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, falið stofnuninni önnur verkefni en kveðið er á um í lögum þessum.

5. gr.
Stjórn Vinnumálastofnunar.

    Félagsmálaráðherra skipar sex manna stjórn Vinnumálastofnunar að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur sameiginlega af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndur sameiginlega af fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Ráðherra skipar tvo stjórnarmenn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnar sjóðsins og hinn varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórn Vinnumálastofnunar skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Stjórninni er meðal annars ætlað að fjalla um og samþykkja starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar sem forstjóri leggur fyrir eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs. Enn fremur skal hún árlega leggja fram tillögur til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um fjármagn til greiðslu atvinnuleysisbóta og umsýslu Vinnumálastofnunar fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi. Stjórn stofnunarinnar skal jafnframt annast faglega stefnumótun á sviði vinnumarkaðsaðgerða og gera félagsmálaráðherra grein fyrir atvinnuástandi og árangri vinnumarkaðsaðgerða í skýrslu í lok hvers árs. Skal stjórnin hafa reglulegt samráð við vinnumarkaðsráðin, sbr. 6. gr., um atvinnuástandið á hverju svæði.
    Forstjóri Vinnumálastofnunar skal sitja fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt.
    Stjórnarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu í stjórninni og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af stjórnarsetu.
    Félagsmálaráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.

6. gr.
Vinnumarkaðsráð.

    Félagsmálaráðherra skipar sjö manna svæðisbundin vinnumarkaðsráð. Í hvert vinnumarkaðsráð skulu tveir ráðsmanna tilnefndir af samtökum launafólks á svæðinu og tveir ráðsmanna tilnefndir af samtökum atvinnurekenda. Jafnframt skal einn ráðsmanna tilnefndur af menntamálaráðherra, einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og einn tilnefndur af sveitarfélögunum á svæðinu. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Félagsmálaráðherra skipar formann og varaformann vinnumarkaðsráðs úr hópi þeirra sem tilnefndir hafa verið sem aðalmenn.
    Náist ekki samkomulag um tilnefningu skv. 1. mgr. úrskurðar félagsmálaráðherra um hver skuli tilnefna fulltrúa í ráðið með hliðsjón af því hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru á svæðinu og að fenginni umsögn viðkomandi heildarsamtaka.
    Félagsmálaráðherra ákveður staðsetningu vinnumarkaðsráða að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar Vinnumálastofnunar.
    Vinnumarkaðsráð á hverju svæði skal skila skýrslu til stjórnar Vinnumálastofnunar um stöðu atvinnumála á svæðinu í nóvember ár hvert ásamt tillögum um þær vinnumarkaðsaðgerðir sem mælt er með að lögð verði áhersla á árið eftir. Enn fremur skulu vinnumarkaðsráðin vera hlutaðeigandi þjónustustöð Vinnumálastofnunar til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum á svæðinu.
    Félagsmálaráðherra getur falið vinnumarkaðsráðum önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið laganna að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar.

7. gr.
Umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

    Atvinnuleitendum á aldrinum 16 til 70 ára er heimilt að sækja um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skulu fylgja nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar, svo sem vottorð sérfræðilæknis þegar um skerta vinnufærni er að ræða. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður hans samþykkja umsóknina með undirritun sinni.
    Umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum felur í sér skráningu hjá vinnumiðlun Vinnumálastofnunar og beiðni um aðstoð ráðgjafa stofnunarinnar við atvinnuleit.
    Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum frá öðrum aðilum vegna einstakra umsókna þegar ástæða er til að mati hennar.

8. gr.
Tilkynning um að atvinnuleit sé hætt.

    Sá sem hefur sótt um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og notið þjónustu Vinnumálastofnunar í atvinnuleit samkvæmt lögum þessum skal tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Tilkynningin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og skal taka fram ástæðu þess að atvinnuleit var hætt.

9. gr.
Kæruheimild.

    Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Um málsmeðferð fer skv. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

III. KAFLI
Vinnumarkaðsaðgerðir.
10. gr.
Vinnumiðlun.

    Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir laus störf sem í boði eru á landinu öllu enda er landið eitt atvinnusvæði. Þar skal meðal annars koma fram í hverju starfið er fólgið, hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda og annað er máli skiptir. Vinnumálastofnun annast enn fremur vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Vinnumálastofnun skal aðstoða alla á aldrinum 16 til 70 ára sem hafa heimild til að ráða sig til starfa hér á landi án takmarkana við atvinnuleit. Stofnunin skal miðla upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda og veita þeim aðstoð við að finna störf við hæfi. Þegar talið er að atvinnuleitandi uppfylli skilyrði starfslýsingar á lausu starfi skal Vinnumálastofnun veita aðstoð við að koma á sambandi milli atvinnuleitanda og þess atvinnurekanda sem óskar eftir starfsmanni.
    Vinnumálastofnun skal jafnframt aðstoða atvinnurekendur sem leita eftir almennum upplýsingum um framboð á vinnuafli eða aðstoð við ráðningu starfsfólks.

11. gr.
Mat á vinnufærni atvinnuleitanda.

    Þegar atvinnuleitandi sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum fer fram mat á vinnufærni hans hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Atvinnuleitandi skal leggja fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans svo að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í einstökum vinnumarkaðsúrræðum. Með samkomulagi við atvinnuleitandann er síðan gerð áætlun um atvinnuleit hans og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum á grundvelli matsins. Jafnframt skal leiðbeina atvinnuleitanda um aðra þjónustu verði talin þörf á að hann leiti sér aðstoðar í öðrum opinberum þjónustukerfum áður eða samhliða þeirri þjónustu sem veitt er samkvæmt lögum þessum.
    Þjónusta ráðgjafa Vinnumálastofnunar skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins atvinnuleitanda. Enn fremur skal miða við atvinnuhorfur í landinu á hverjum tíma. Þegar atvinnuleitandi er yngri en 18 ára skal hafa hliðsjón af ákvæðum barnaverndarlaga og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum við gerð áætlunar um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum.
    Heimilt er að binda þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum við það skilyrði að hann leiti sér fyrst eða samhliða aðstoðar annarra þjónustuaðila.

12. gr.
Skipulag vinnumarkaðsúrræða.

    Vinnumálastofnun annast skipulag vinnumarkaðsúrræða sem skiptast í eftirfarandi flokka:
     a.      einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni,
     b.      starfsúrræði, þ.e. starfskynning, starfsþjálfun og reynsluráðning,
     c.      ráðgjöf samhliða námskeiðsþátttöku og reynsluráðningu,
     d.      námsúrræði,
     e.      atvinnutengd endurhæfing, og
     f.      atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa.
    Vinnumálastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga um þátttöku atvinnuleitenda í einstökum vinnumarkaðsúrræðum sem aðrir þjónustuaðilar annast framkvæmd á.
    Félagsmálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipulag vinnumarkaðsúrræða að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, svo sem hvers konar námskeið skulu haldin og hvaða nám teljist til vinnumarkaðsaðgerða.

13. gr.
Þátttaka atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum.

    Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

14. gr.
Eftirlit með þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum.

    Ráðgjafar Vinnumálastofnunar skulu hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. Skulu þeir boða atvinnuleitendur reglulega í viðtöl eftir þörfum hvers og eins atvinnuleitanda. Skal þá fara yfir áætlun um atvinnuleit og þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsúrræðum og hún endurskoðuð eftir þörfum hverju sinni. Geta þeir óskað eftir gögnum frá atvinnuleitanda er færir sönnur á atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum þegar þörf krefur.
    Heildarendurskoðun á aðstæðum atvinnuleitanda skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir að hann sótti fyrst um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og hann er enn án atvinnu.
    Vinnumálastofnun er heimilt að synja atvinnuleitanda um þjónustu samkvæmt lögum þessum þegar hann fylgir ekki eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, þar á meðal ítrekað hafnar þátttöku í einstökum vinnumarkaðúrræðum, sinnir því ekki að leita sér aðstoðar hjá öðrum þjónustuaðilum, sbr. 3. mgr. 11. gr., eða lætur hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína eða þær breytingar er kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

15. gr.
Samstarf við aðra þjónustuaðila.

    Ráðgjafar Vinnumálastofnunar skulu leita eftir samstarfi við aðra þjónustuaðila í samráði við atvinnuleitanda þegar atvinnuleitandi þarf á þjónustu annarra fagaðila að halda til að ná árangri við að bæta vinnufærni sína í því skyni að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.
    Enn fremur skulu ráðgjafar Vinnumálastofnunar starfa náið með öðrum þjónustuaðilum þegar atvinnuleitandi nýtur þjónustu þeirra eða aðrir þjónustuaðilar leita eftir liðsinni þeirra.
    Ráðgjafar Vinnumálastofnunar skulu tilkynna um tilvik þar sem atvinnuleitendur fylgja ekki eftir áætlun þeirra um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum til hlutaðeigandi þjónustuaðila þegar um slíkt hefur verið samið á grundvelli þjónustusamninga.

16. gr.
Þjónusta án endurgjalds.

    Þjónusta Vinnumálastofnunar skal vera atvinnuleitendum og atvinnurekendum að kostnaðarlausu.

IV. KAFLI
Könnun á aðstæðum á vinnumarkaði.
17. gr.
Öflun upplýsinga um atvinnuástandið í landinu.

    Vinnumálastofnun skal reglulega afla upplýsinga um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur frá einstökum landshlutum. Jafnframt skal hún fylgjast með samsetningu vinnuaflsins í landinu.

18. gr.
Miðlun upplýsinga um atvinnuástand í landinu.

    Vinnumálastofnun skal gefa út skýrslu í byrjun hvers árs um stöðu mála á innlendum vinnumarkaði þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um atvinnuleysi, atvinnuhorfur og mannaflaþörf innan tiltekinna starfsgreina og útgáfu atvinnuleyfa til erlendra starfsmanna.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
Um 19. gr.
Einkareknar vinnumiðlanir.

    Fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum er heimilt að annast milligöngu um ráðningar, enda sé það gert á kostnað atvinnurekenda.
    Mál vegna brota skv. 1. mgr. skulu varða sektum sem renna skulu í ríkissjóð. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

20. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, um nánari framkvæmd laga þessara.

21. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Enn fremur falla úr gildi lög nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Félagsmálaráðherra skipaði nefnd árið 2004 sem ætlað var að endurskoða efni laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir. Markmiðið með endurskoðuninni var að stuðla að bættu öryggi fólks í atvinnuleysi sem og gæðum vinnumarkaðsaðgerða ásamt því að auka skilvirkni innan kerfisins almennt. Nefndin skilaði skýrslu til ráðherra í nóvember 2005 og er frumvarpið í meginatriðum byggt á tillögum hennar. Jafnframt var höfð hliðsjón af skýrslu starfshóps um starfsendurhæfingu á Íslandi frá febrúar 2005 og skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um Fjölgun öryrkja á Íslandi, orsakir og afleiðingar. Meginmarkmið með frumvarpi þessu er að stuðla að því að sem flestir fái tækifæri til að vera virkir á vinnumarkaði sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta.
    Frumvarp þetta felur í sér breytt skipulag á vinnumarkaðsaðgerðum þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að þær vinnumarkaðsaðgerðir sem í boði eru takmarkist við einstök greiðslukerfi en miði í staðinn við þarfir einstaklinganna sem þurfa á þeim að halda. Það að ráðgjafi geti beint einstaklingi í þau úrræði sem talin eru henta einstaklingnum best óháð því hvaðan framfærsla hans kemur hlýtur jafnframt að auka líkurnar á betri og markvissari árangri vinnumarkaðsaðgerða. Markmiðið er að ein stofnun, Vinnumálastofnun, annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem fela í sér vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitenda og skipulag vinnumarkaðsúrræða með hliðsjón af færni þeirra sem eru í atvinnuleit. Þannig má gera ráð fyrir að betri yfirsýn fáist yfir þau úrræði sem í boði eru en gagnrýnt hefur verið að starfsendurhæfing sé of dreifð hér á landi og á hendi margra aðila. Samhliða betri yfirsýn yfir úrræðin má vænta þess að auðveldara verði að grípa inn í þegar í ljós kemur að einstök úrræði henta illa fyrir einstaklinginn í því skyni að bjóða honum aðra þjónustu sem er vænlegri til árangurs að teknu tilliti til fyrri reynslu. Þá mun starfshæfing vera samfelld enda þótt einstaklingurinn fari milli greiðslukerfa.
    Áhersla er lögð á getu einstaklingsins þannig að litið verði á alla þá sem leita til Vinnumálastofnunar sem virka atvinnuleitendur. Þannig geta allir sem eru í atvinnuleit og þurfa á aðstoð að halda til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði óskað eftir þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum á vegum stofnunarinnar. Þegar atvinnuleitandi þarf á aðstoð að halda er mikilvægt að valið sé vinnumarkaðsúrræði sem er til þess fallið að skila einstaklingnum árangri. Lagt er því til að fyrir hendi verði mismunandi tegundir vinnumarkaðsúrræða sem geti falið í sér mjög afmarkaða þjónustu eða mjög öfluga og víðtæka aðstoð. Það fellur í hlut ráðgjafa Vinnumálastofnunar að meta hvaða úrræði henta hverjum og einum í samráði við þá sem í hluta eiga en áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða þjónustu. Framboð úrræða miðar síðan við samsetningu hópsins sem óskar eftir þjónustu stofnunarinnar sem og atvinnuhorfur á innlendum vinnumarkaði.
    Virkar aðgerðir geta leitt til þess að sem flestir fái þjónustu við hæfi og þá einnig inn í öðrum kerfum samfélagsins. Samvinna milli fagaðila er starfa innan ólíkra kerfa er mjög mikilvæg svo að árangur megi nást. Gert er ráð fyrir að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiðbeini atvinnuleitendum um aðra þjónustu í þeim tilvikum þegar talin er þörf á að þeir leiti sér aðstoðar í öðrum opinberum þjónustukerfum áður eða samhliða þeirri þjónustu sem veitt er samkvæmt frumvarpi þessu. Þykir jafnframt skynsamlegt að unnt sé að binda þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum því skilyrði að atvinnuleitandi leiti sér jafnframt þjónustu annarra fagaðila. Á sama hátt er mikilvægt að aðrir þjónustuaðilar leiti liðsinnis þessa kerfis en oft getur verið mikilvægt að atvinnutengd endurhæfing hefjist áður en læknisfræðilegri eða almennri endurhæfingu er að fullu lokið. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að náin samvinna takist milli Vinnumálastofnunar og þeirra sem annast annars konar endurhæfingu svo að árangur náist við að aðstoða einstaklinginn að verða virkur á vinnumarkaði.
    Þá er undirstrikað mikilvægi þess að atvinnuleitandi fylgi þeirri ráðgjöf sem hann fær frá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar til að árangur megi nást af vinnumarkaðsaðgerðum. Er því jafnframt kveðið á um skyldu atvinnuleitanda að fylgja eftir þeirri áætlun sem hann gerir með ráðgjafa stofnunarinnar um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Í því felst meðal annars að atvinnuleitandi mæti í viðtöl til ráðgjafa stofnunarinnar en gert er ráð fyrir að allir þeir sem leita til stofnunarinnar eigi regluleg samskipti við ráðgjafa hennar eftir því sem talið er nauðsynlegt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Frumvarp þetta fjallar um vinnumarkaðsaðgerðir sem fela í sér vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitenda og skipulag vinnumarkaðsúrræða með hliðsjón af færni þeirra sem eru í atvinnuleit. Talið er mikilvægt að þessi þjónusta sé á hendi einnar stofnunar enda er það til þess fallið að auka yfirsýn yfir þau úrræði sem í boði eru hverju sinni. Enn fremur er mikilvægt að sú stofnun er annast skipulag vinnumarkaðsaðgerða sé jafnframt í nánum tengslum við atvinnulífið til að geta betur áttað sig á hvers konar starfshæfingu atvinnuleitenda það kallar eftir á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir að fyrir hendi verði nokkrar tegundir vinnumarkaðsúrræða og metið verði hvaða aðgerðir henti hverjum og einum. Þá liggur fyrir að atvinnuleitendur þurfa oft ekki á vinnumarkaðsaðgerðum að halda þegar störf við hæfi eru í boði.

Um 2. gr.

    Meginmarkmið vinnumarkaðsaðgerða er að veita fólki sem af einhverjum ástæðum hefur helst úr lestinni á vinnumarkaði tækifæri til þess að taka aftur virkan þátt. Enn fremur er áhersla lögð á að ná til þeirra sem hafa ekki áður náð að fóta sig á vinnumarkaði. Ekki er því gert ráð fyrir að þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum verði bundin því skilyrði að hlutaðeigandi eigi rétt á greiðslum úr einstökum greiðslukerfum. Enn fremur er mikilvægt að litið sé á alla þá sem leita til Vinnumálastofnunar sem virka atvinnuleitendur og finna árangursríkar leiðir til að sem flestir verði virkir á vinnumarkaði. Þá er það einnig mikilvægt markmið virkra vinnumarkaðsaðgerða að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli og sjá atvinnulífinu fyrir hæfu starfsfólki í samræmi við þarfir þess á hverjum tíma.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að félagmálaráðherra fari með yfirstjórn vinnumarkaðsaðgerða. Ráðherra fer því með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir með þeim stofnunum og stjórnum sem fjalla um málaflokkinn og ber ábyrgð gagnvart Alþingi á að framkvæmd málaflokksins verði í samræmi við lög er um hann gilda. Lagt er til að Vinnumálastofnun annist framkvæmd frumvarps þessa en stofnunin starfar á ábyrgð ráðherra. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi stofnuninni sérstaka stjórn, sbr. 5. gr. frumvarpsins, þar sem í eiga sæti meðal annars fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist áfram framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem fela í sér vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitenda og skipulag úrræða sem eru til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitenda. Samkvæmt 14. gr. gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir er svæðisvinnumiðlunum skylt að aðstoða alla þá sem hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi við atvinnuleit og val á starfsnámi. Þrátt fyrir það hefur framkvæmdin verið sú að þær vinnumarkaðsaðgerðir sem hafa verið skipulagðar hafa einskorðast við úrræði í tengslum við atvinnuleysistryggingakerfið. Í frumvarpi þessu er hins vegar lögð áhersla á að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða án tillits til þess hvaðan framfærsla atvinnuleitenda kemur. Er jafnframt miðað við að þeir sem eru á uppsagnarfresti í starfi geti leitað eftir þjónustu stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar taki mið af hæfni og styrkleika atvinnuleitenda sem þurfa á aðstoð að halda til að komast út á vinnumarkaðinn eða halda áfram þátttöku sinni þar. Er miðað við að þátttaka þeirra verði ekki bundin því skilyrði að hlutaðeigandi eigi rétt á greiðslum úr tilteknum greiðslukerfum. Þannig er leitast við að vinnumarkaðsaðgerðir miðist við þarfir fólksins en takmarkist ekki við einstök greiðslukerfi. Þetta fyrirkomulag kallar á breytta samsetningu faglegrar þekkingar starfsfólks stofnunarinnar en náin tengsl við vinnumarkaðinn eru talin eitt lykilatriða að góðum árangri í starfshæfingu.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist meðal annars framkvæmd atvinnuleysistrygginga, útgáfu atvinnuleyfa til útlendinga, framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof og laga um starfsmannaleigur samkvæmt sérlögum er um þessi atriði gilda. Auk þess er gert ráð fyrir að stofnunin haldi áfram að sjá um söfnun, vinnslu og miðlun upplýsinga um stöðu og horfur á vinnumarkaði sem og framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að því er varðar vinnumarkaðinn, svo sem rekstur EURES-vinnumiðlunar. Þá er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði heimilt með reglugerð að fela stofnuninni önnur verkefni en felast í lögum þessum.
    Lagt er til að Vinnumálastofnun lúti áfram sérstakri stjórn, sbr. 5. gr. frumvarpsins, en félagsmálaráðherra skipar jafnframt forstjóra stofnunarinnar. Forstjórinn ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni gagnvart ráðherra, sbr. meðal annars 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Lagt er til að hann annist gerð starfs- og fjárhagsáætlunar stofnunarinnar sem lögð er fyrir stjórn stofnunarinnar til samþykkis eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs. Enn fremur er miðað við að forstjóri beri ábyrgð á framkvæmd starfs- og fjárhagsáætlunarinnar og fjármálum stofnunarinnar sem og rekstri hennar almennt gagnvart ráðherra. Þá ber forstjóri ábyrgð á ráðningu starfsfólks hennar, þar með talið á ráðningu starfsfólks þjónustustöðva hennar sem dreifðar eru um landið. Mikilvægt er að stofnunin hafi þjónustustöðvar á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að veita öllum sem til hennar leita góða þjónustu óháð búsetu. Ekki síður skiptir máli að þekking á staðháttum sé fyrir hendi innan stofnunarinnar. Á það einkum við í ljósi þess að aðstæður á vinnumarkaði geta verið misjafnar eftir landshlutum enda þótt landið sé eitt atvinnusvæði. Miðað er við að staðarval þjónustustöðva ráðist af því að sem flestir íbúar þess eigi greiðan aðgang að þjónustunni en miðað er við að þær verði áfram átta talsins. Félagsmálaráðherra tekur ákvarðanir um fækkun eða fjölgun þjónustustöðva að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar Vinnumálastofnunar.
    Ekki þykir ástæða til að fjalla sérstaklega um þagnarskyldu starfsmanna Vinnumálastofnunar á sama hátt og gert er í 5. gr. frumvarpsins að því er varðar stjórnarmennina þar sem 18. gr. laga nr. 70/1996, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fjallar um þagnarskyldu þeirra. Gert er ráð fyrir að rekstur Vinnumálastofnunar er varðar framkvæmd frumvarps þessa greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Þó er gert ráð fyrir að einstök greiðslukerfi kunni að koma að fjármögnun vinnumarkaðsúrræða vegna þátttöku skjólstæðinga þeirra samkvæmt þjónustusamningum.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði áfram skipuð stjórn er starfar í umboði félagsmálaráðherra. Lagt er til að stjórnin sé skipuð með sambærilegum hætti og áður en þó er miðað við að fulltrúum í stjórninni verði fækkað um tvo frá því sem nú er þannig að í stjórn sitji sex fulltrúar í stað átta áður. Áhersla er lögð á að þríhliða samstarfi samtaka aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda verði viðhaldið. Er því lagt til að einn stjórnarmaður verði tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur sameiginlega af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndur sameiginlega af fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af Samtökum atvinnulífsins. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi tvo stjórnarmenn án tilnefningar og verður annar þeirra formaður stjórnar sjóðsins og hinn varaformaður.
    Breyting á fjölda stjórnarmanna sem lögð er til í frumvarpi þessu hefur þau áhrif að Samtök atvinnulífsins fá einn fulltrúa í stað tveggja áður. Ástæðan fyrir því fyrirkomulagi er að Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasambandið höfðu hvort sinn fulltrúann. Eftir að þau sameinuðust í Samtök atvinnulífsins hafa samtökin síðan tilnefnt tvo fulltrúa. Þykir ástæða til að breyta þessu þannig að tveir fulltrúar komi frá samtökum launafólks og jafnmargir frá atvinnurekendum. Er gert ráð fyrir að aðilar á opinberum vinnumarkaði sameinist um fulltrúa þannig að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna sameinist um einn fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneyti sameinist um einn fulltrúa. Þá þykir ekki ástæða til að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eigi fulltrúa í stjórn Vinnumálastofnunar en gert er ráð fyrir því að þessar stjórnir vinni mikið saman.
    Ákvæði 2. mgr. fjallar um hlutverk stjórnar Vinnumálastofnunar. Gert er áfram ráð fyrir að stjórnin hafi eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Það breytir þó ekki því að félagsmálaráðherra fer áfram með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir með starfsemi stofnunarinnar. Stjórnin skal enn fremur fjalla um og samþykkja starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar sem forstjóri hennar leggur fyrir eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs. Gert er ráð fyrir að stjórnin annist faglega stefnumótun í umboði ráðherra en stjórnin mun gera ráðherra árlega grein fyrir atvinnuástandi og árangri vinnumarkaðsaðgerða í skýrslu. Skal skýrslan jafnframt hafa að geyma tillögur að stefnu í vinnumarkaðsmálum. Gerir stjórnin tillögur til ráðherra um fjármagn til reksturs stofnunarinnar og til vinnumarkaðsaðgerða. Mun stjórnin meðal annars byggja tillögur sínar á upplýsingum og greiningu svæðisbundinna vinnumarkaðsráða sem starfa með einstökum starfsstöðvum Vinnumálastofnunar. Ráðin eru stofnuninni og stjórninni til ráðgjafar um vinnumarkaðsmálefni á hverju svæði en nánar er fjallað um hlutverk þeirra í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að stjórn Vinnumálastofnunar geri tillögur til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um fjármagn til greiðslu atvinnuleysisbóta og til greiðslu fyrir umsýslu Vinnumálastofnunar fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi.
    Á sama hátt og áður er gert ráð fyrir að forstjóri Vinnumálastofnunar sitji fundi stjórnar stofnunarinnar með málfrelsi og tillögurétt, sbr. 5. mgr. 5. gr. gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Ekki þykir ástæða til að taka fram hversu oft stjórninni er ætlað að hittast. Það hlýtur að koma í hlut formanns stjórnarinnar að ákveða fundi hennar eftir umfangi verkefna hverju sinni en ákvæði VIII. kafla stjórnsýslulaga um stjórnsýslunefndir gilda almennt um störf stjórnarinnar. Þá þykir eðlilegt að kveðið sé á um þagnarskyldu stjórnarmanna vegna persónuupplýsinga sem þeir kunna að komast að í starfi sínu í stjórninni og leynt eiga að fara.

Um 6. gr.

    Vinnumarkaðsráðunum er ætlað að koma í stað svæðisráða samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir. Gert er ráð fyrir að þau séu hluti af starfsemi Vinnumálastofnunar og starfi með og fái þjónustu starfsstöðva hennar. Lagt er til að félagsmálaráðherra ákveði staðsetningu vinnumarkaðsráðanna að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar Vinnumálastofnunar en miðað er við að þau verði átta talsins. Lagt er til að vinnumarkaðsráðin verði skipuð sjö fulltrúum í stað níu áður þannig að samtök launafólks og samtök atvinnurekenda tilnefni hvor tvo fulltrúa og sveitarfélögin, menntamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tilnefni hver sinn fulltrúa. Talið er mikilvægt að menntamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eigi hvor sinn fulltrúa þar sem lögð er áhersla á að þjónustustöðvar Vinnumálastofnunar eigi náið samstarf við heilsugæslu og fræðsluyfirvöld á svæðinu svo að unnt sé að tryggja sem besta þjónustu við þá sem þurfa á aðstoð að halda við að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
    Hlutverk vinnumarkaðsráðanna er að eiga frumkvæði að tillögum að vinnumarkaðsúrræðum og framkvæmd þeirra á viðkomandi svæði enda er þeim ætlað að vera Vinnumálastofnun og stjórn hennar til ráðgjafar um vinnumarkaðsmálefni á hverju svæði. Enn fremur er gert ráð fyrir að þjónustustöðvar Vinnumálastofnunar hafi náið samráð við ráðin við ákvörðun á framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða á svæðinu í samræmi við stefnumótun stjórnar Vinnumálastofnunar um skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum. Ráðunum er því ætlað meira hlutverk í framkvæmdinni en verið hefur. Sem dæmi má nefna er gert ráð fyrir að ráðin gefi stjórn stofnunarinnar árlega skýrslu um atvinnumál á svæðinu, þar á meðal um atvinnuástandið og mat á árangri vinnumarkaðsaðgerða, en þeim er ætlað að fylgjast með framvindu atvinnumála á viðkomandi svæði. Skýrslan skal meðal annars innihalda tillögur hvers ráðs um vinnumarkaðsaðgerðir á svæðinu. Er gert ráð fyrir að ráðin hafi síðan reglulegt samráð við stjórn stofnunarinnar. Þá er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra geti falið vinnumarkaðsráðunum önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið frumvarps þessa að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar.

Um 7. gr.

    Ákvæðið fjallar um umsókn atvinnuleitenda um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Gert er ráð fyrir að sérstök eyðublöð verði fyrir hendi til að greiða fyrir framkvæmd laganna. Vel kann að vera að atvinnuleitendur hafi fyllt út sambærileg eyðublöð innan annarra þjónustukerfa, svo sem umsókn um atvinnuleysistryggingar, og ber þá að taka tillit til þeirra til að komast hjá því að umsækjendur þurfi að tvítaka sömu upplýsingarnar. Mikilvægt er að nauðsynleg gögn fylgi umsóknum atvinnuleitenda. Aðstæður fólks eru misjafnar og því ekki unnt að hafa tæmandi upptalningu gagna í frumvarpinu. Um er að ræða gögn sem eru til þess fallin að veita upplýsingar um vinnufærni atvinnuleitanda og geta því verið nauðsynleg til að auka líkur á því að atvinnuleitandi verði virkur á vinnumarkaði. Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að leita upplýsinga frá öðrum aðilum þegar ástæða þykir til að mati stofnunarinnar. Á það einkum við þegar fyrir liggur að atvinnuleitandi hefur leitað sér aðstoðar hjá fleiri aðilum en mikilvægt er að aðilar vinni saman að því að auka færni atvinnuleitanda.
    Gert er ráð fyrir að umsóknir atvinnuleitenda sem eru yngri en 18 ára að aldri hljóti samþykki foreldris eða forráðamanns sem er nýmæli. Slíkt samþykki leiðir af inntaki lögræðislaga, nr. 71/1997, og barnalaga, nr. 76/2003, en börn verða ekki lögráða fyrr en við 18 ára aldur. Þykir eðlilegt að það sé skilyrði að samþykki foreldris eða forráðamanns liggi fyrir um að umsækjandi ráði sig til allra almennra starfa sem lög heimila að hann sinni. Enn fremur er miðað við að ráðgjöf Vinnumálastofnunar taki mið af ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, við skipulag á ráðgjöf fyrir ungmenni á aldrinum 16–17 ára og hvaða störf er unnt að bjóða þeim aldurshópi enda gilda sérreglur um þennan aldurshóp að þessu leyti.

Um 8. gr.

    Lagt er til að sá sem hefur sótt um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og notið þjónustu Vinnumálastofnunar í atvinnuleit tilkynni til stofnunarinnar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Þetta er talið mikilvægt til að fylgjast með stöðu mála á vinnumarkaði og eins til að hafa yfirlit yfir stöðu þeirra sem óska eftir að njóta þjónustu stofnunarinnar við skipulag á vinnumarkaðsaðgerðum.

Um 9. gr.

    Gert er ráð fyrir að stjórnvaldsákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli frumvarpsins verði kæranlegar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Með því skipulagi er rofin kæruheimild stjórnsýslulaga til ráðherra. Þrátt fyrir slíkt fyrirkomulag er gert ráð fyrir að ráðherra fari eftir sem áður með aðrar stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart þeim er fara með framkvæmd laganna.
    Ekki þótti ástæða til að setja á laggirnar nýja úrskurðarnefnd enda má gera ráð fyrir að eðli mála sem upp kunna að koma á grundvelli frumvarps þessa geri sambærilegar kröfur um hæfni nefndarmanna og gert er vegna mála er varðar rétt atvinnuleitanda innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Gert er ráð fyrir að 10. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, sem og ákvæði stjórnsýslulaga, komi til með að gilda um meðferð mála er kunna að berast nefndinni á grundvelli frumvarps þessa.

Um 10. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi umsjón með vinnumiðlun fyrir landið allt enda er landið eitt atvinnusvæði. Litið er á vinnumiðlun sem hluta vinnumarkaðsaðgerða en ákvæði þetta er efnislega samhljóða c-lið 1. mgr. 10. gr. og 14. gr. gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Jafnframt er gert ráð fyrir að stofnunin annist framkvæmd á EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi eins og verið hefur á grundvelli samningsskuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 11. gr.

    Mikilvægt er að líta á alla þá sem leita til Vinnumálastofnunar sem virka atvinnuleitendur. Lagt er til að vinnufærni atvinnuleitanda verði metin sem fyrst eftir að hann sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Áhersla er lögð á að þegar í upphafi verði metið hvers konar aðstoð hver og einn þarf á að halda svo að unnt sé að hefjast handa við að aðstoða þá í atvinnuleit sinni með virkum hætti. Þýðingarmikið er að atvinnuleitandi leggi fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans og þegar hann hefur notið aðstoðar innan annarra kerfa, sem jafnvel vísa honum til Vinnumálastofnunar, er nauðsynlegt að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiti eftir nánu samstarfi við þá aðila er hafa áður veitt honum liðsinni.
Þegar færni og staða einstaklingsins að öðru leyti hefur verið metin skal í samráði við atvinnuleitandann gera áætlun um atvinnuleitina og þátttöku hans í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Það skiptir máli að atvinnuleitandinn sé hafður með í ráðum enda áhersla lögð á einstaklingsmiðaða þjónustu. Má þá jafnframt ætla að árangur vinnumarkaðsaðgerða kunni að verða betri en ella. Ekki síður er mikilvægt að líta einnig til þess hverjar eru atvinnuhorfur í landinu á hverjum tíma en nauðsynlegt er að miða skipulag vinnumarkaðsúrræða við raunveruleg tækifæri einstaklinganna til að fá störf við hæfi á innlendum vinnumarkaði. Þá kunna að koma upp tilvik þar sem eiginleg atvinnuleit hefst ekki fyrr en að lokinni atvinnutengdri endurhæfingu eða jafnvel eftir að atvinnuleitandi hefur leitað sér aðstoðar innan annarra opinberra þjónustukerfa. Í síðarnefnda tilvikinu er mikilvægt að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiðbeini atvinnuleitanda áfram til viðeigandi þjónustustofnana innan heilbrigðis- og félagslega kerfisins. Lögð er áhersla á að gott samstarf og samráð verði viðhaft við aðrar þjónustustofnanir innan framangreindra kerfa svo allir sem koma að málum geti unnið saman við að aðstoða atvinnuleitandann við að verða virkur á vinnumarkaði. Þykir ástæða vera til að veita Vinnumálastofnun heimildir til að binda þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum skilyrðum um að hann leiti sér fyrst eða samhliða aðstoðar annarra þjónustuaðila enda til dæmi þess að einstaklingur teljist ekki vera vinnufær fyrr en hann hefur ráðið bót á öðrum vandamálum sem hann kann að glíma við á sama tíma.
    Þegar atvinnuleitandi er á aldrinum 16–17 ára er mikilvægt að haft sé jafnframt samráð við foreldra eða forráðamenn enda gert að skilyrði að þeir samþykki umsóknina um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Við skipulag atvinnuleitar og þátttöku í einstökum vinnumarkaðsúrræðum þarf enn fremur að líta til ákvæða barnaverndarlaga sem og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Um 12. gr.

    Vinnumálastofnun er ætlað að annast skipulag vinnumarkaðsúrræða sem eru hluti vinnumarkaðsaðgerða. Sú breyting er lögð til að vinnumarkaðsúrræðin miðist ekki eingöngu að þörfum þeirra sem eiga rétt á atvinnuleysistryggingum heldur verði þau slitin úr beinum tengslum við einstök greiðslukerfi. Þannig geta allir þeir sem eru í atvinnuleit og þurfa á aðstoð að halda til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði óskað eftir þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að gera kerfið í senn skilvirkara og einfaldara svo að unnt sé að beina atvinnuleitendum í þau úrræði sem talin eru henta hverjum og einum best.
    Þegar atvinnuleitandi þarf á aðstoð að halda er mikilvægt að fyrir valinu verði vinnumarkaðsúrræði við hæfi sem er til þess fallið að skila einstaklingnum árangri við að finna sér starf. Lagt er til að fyrir hendi verði nokkrar tegundir vinnumarkaðsúrræða þannig að sum þeirra feli í sér mjög takmarkaða þjónustu en önnur mjög öfluga aðstoð. Það fellur því í hlut ráðgjafa Vinnumálastofnunar að meta hvaða úrræði hentar hverjum og einum og miða framboð úrræða við samsetningu hópsins sem óskar eftir þjónustu stofnunarinnar sem og við atvinnuhorfur á vinnumarkaði.
    Gert er ráð fyrir sex tegundum vinnumarkaðsúrræða. Vinnumálastofnun skipuleggur þau og annast framkvæmd þeirra en jafnframt er gert ráð fyrir að stofnunin geti gert þjónustusamninga um þátttöku atvinnuleitenda í einstökum úrræðum sem aðrir aðilar bjóða upp á, svo sem sveitarfélög og einkaaðilar. Þarna er um að ræða einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu sem og námskeið til að bæta tiltekna færni en tölvu- og bókhaldsnámskeið hafa til dæmis þótt vinsæl úrræði til að auka færni við almenn skrifstofustörf. Starfsúrræði sem fela í sér starfskynningu, starfsþjálfun eða reynsluráðningu hafa þótt skila góðum árangri en þau byggjast á góðu samstarfi við atvinnulífið. Jafnframt kann að vera mikilvægt að skipulögð ráðgjöf fari fram samhliða námskeiðsþátttöku eða starfsúrræðum. Hún getur falist í reglulegum viðtölum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða einstaka verkefni þar sem eftirfylgnin er mikil á vegum þess er annast námskeiðið. Námsúrræði hafa þótt mjög mikilvægt vinnumarkaðsúrræði en það þarf að meta það hverju sinni hvers konar námsframboð nýtist atvinnuleitendum beint í atvinnuleit. Þar kemur helst til greina starfstengt nám en ekki er hér átt við hefðbundið framhaldsskólanám eða nám á háskólastigi.
    Mikilvægt er að í boði séu úrræði sem fela í sér atvinnutengda endurhæfingu þar sem aðalmarkmið endurhæfingar er að atvinnuleitandi verði virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Lagt er til að orðin „atvinnutengd endurhæfing“ verði notuð í stað starfsendurhæfingar sem er víðtækara hugtak og getur falið jafnframt í sér læknisfræðilega endurhæfingu og almenna endurhæfingu sem þarf ekki að miða að því að fólk verði aftur virkt á vinnumarkaði eftir til dæmis slys eða alvarleg veikindi. Í sumum tilvikum þykir slíkt ekki raunhæft heldur er verið að þjálfa fólk til daglegra athafna, svo sem heimilisstarfa og iðkunar tómstunda. Fólk sem hefur helst úr lestinni á vinnumarkaði eða hefur ekki náð að staðfesta sig þar af ýmsum ástæðum þarf oft á atvinnutengdri endurhæfingu að halda sem felur í sér öfluga aðstoð og stuðning við að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Í sumum tilvikum hefur fólkið notið læknisfræðilegrar endurhæfingar og almennrar endurhæfingar eftir atvikum áður en það getur hafið þátttöku í atvinnutengdri endurhæfingu. Þykir jafnframt oft mikilvægt að fólk hefji atvinnutengda endurhæfingu áður en annarri endurhæfingu er að fullu lokið og kann því að vera mikilvægt að náin samvinna takist milli Vinnumálastofnunar og þeirra er annast annars konar endurhæfingu. Aðrir kunna að hafa hætt þátttöku á vinnumarkaði af öðrum ástæðum, svo sem vegna umönnunar barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima, og vilja taka þráðinn upp að nýju sem getur reynst mörgum erfitt. Þá er gert ráð fyrir að í boði verði atvinnutengd endurhæfing fyrir einstaka hópa fólks en þar undir falla úrræði eins og atvinna með stuðningi og verndaðir vinnustaðir.
    Mikilvægt er talið að einstökum úrræðum innan kerfisins verði nánar lýst í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar. Það getur skipt töluverðu máli að stjórnsýslan eigi þess kost að vera sveigjanleg á þessu sviði í ljósi þess að aðstæður á vinnumarkaði geta breyst hratt og þar með áherslur í starfshæfingu. Er ekki um að ræða breytingu að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

Um 13. gr.

    Frumvarpi þessu er ætlað að veita atvinnuleitendum sem þurfa á aðstoð að halda til að verða virkir á vinnumarkaði rétt til ákveðinnar þjónustu en lykilatriði til að árangur megi nást af vinnumarkaðsaðgerðum er að atvinnuleitandi fylgi eftir þeirri ráðgjöf sem hann fær frá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Í ljósi þess þykir ástæða til að kveða á um þá skyldu atvinnuleitanda að hann fylgi eftir þeirri áætlun sem hann gerir með ráðgjafa Vinnumálastofnunar um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Í því felst meðal annars að atvinnuleitandi mæti í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar en gert er ráð fyrir að allir þeir sem leita til stofnunarinnar eigi regluleg samskipti við ráðgjafa stofnunarinnar eftir því sem talið er nauðsynlegt. Á það enn fremur við um þá sem eru nokkuð sjálfbjarga í atvinnuleit sinni en það getur skipt sköpum að gripið sé inn í eins fljótt og þörf krefur dragist atvinnuleit á langinn. Þá er mikilvægt að atvinnuleitandi upplýsi um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

Um 14. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðgjafar Vinnumálastofnunar hafi ákveðið eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Eftirlitið fer aðallega fram í reglulegum viðtölum sem ráðgjafar boða til eftir þörfum hvers og eins. Er þá meðal annars höfð hliðsjón af þátttöku atvinnuleitanda í einstökum vinnumarkaðsúrræðum en sum úrræðin fela í sér töluvert aðhald enda gert ráð fyrir jafnvel daglegri virkri þátttöku atvinnuleitandans eða í það minnsta daglegum samskiptum við hann. Með þessu er jafnframt auðveldara að grípa inn í þegar í ljós kemur síðar að einstök úrræði henta illa fyrir einstaklinginn með það að markmiði að bjóða honum aðra þjónustu sem þyki vænlegri til árangurs að teknu tilliti til fyrri reynslu.
    Ljóst er að sumir þurfa á mjög öflugri aðstoð að halda þegar í upphafi á meðan aðrir kjósa að bíða átekta enda miklar líkur á að þeir fái vinnu án sérstakrar aðstoðar. Í síðara tilvikinu getur verið hæfilegt að gefa hlutaðeigandi tiltekinn tíma til að verða sér úti um vinnu. Sá sem leitar sér sjálfur að starfi með því að sækja um auglýst störf telst vera í virkri atvinnuleit en talið er mikilvægt að fólk hafi frumkvæði að starfsleit. Gera verður þó þá kröfu að atvinnuleitandi geti sýnt fram á að hann sé að sækja um störf eða hann leggi fram starfsleitaráætlun máli sínu til stuðnings. Beri það ekki árangur þykir eðlilegt að ráðgjafar Vinnumálastofnunar komi honum til aðstoðar þegar ástæða þykir til að mati þeirra. Þannig má gera ráð fyrir að smám saman aukist þrýstingurinn frá stofnuninni um að atvinnuleitandi taki þátt í úrræðum eða ráðgjöf. Ekki eru lögð til sérstök tímamörk á því hvenær einstaklingurinn geti átt rétt á því að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum heldur gert ráð fyrir að það sé háð mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem unnið er í samráði við hvern og einn og eftir atvikum aðra þjónustuaðila. Á sama hátt eru ekki lögð til tímamörk á því í hversu langan tíma atvinnuleitandi kann að eiga rétt á aðstoð Vinnumálastofnunar á grundvelli frumvarps þessa en markmið þeirrar þjónustu er ávallt að atvinnuleitandi verði virkur á vinnumarkaði. Í ljósi þessa er lagt til að heildarendurskoðun á aðstæðum atvinnuleitanda fari fram eigi síðar en þremur árum eftir að hann sótti fyrst um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og hann er enn ekki virkur þátttakandi á vinnumarkaði.
    Meginforsenda þess að atvinnuleitandi verði virkur á vinnumarkaði er að hann hafi vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða og ef til vill ekki hvað síst að hann sé reiðubúinn að taka þeim störfum sem í boði eru. Standi vilji atvinnuleitanda ekki til að gera það sem í hans valdi stendur til að auka líkurnar á að verða virkur á vinnumarkaði þykir ástæða vera til að veita Vinnumálastofnun heimildir til að synja honum um þá þjónustu sem stofnunin veitir á grundvelli frumvarps þessa enda þykir það ekki þjóna tilgangi þess. Það fellur í hlut starfsfólks Vinnumálastofnunar að meta aðstæður atvinnuleitanda en ekki er gert ráð fyrir að sérstökum viðurlögum verði beitt öðrum en þeim að verða af þjónustunni. Síðan er það jafnframt mat stofnunarinnar hvenær einstaklingur telst aftur vera atvinnuleitandi og eiga þá rétt á þjónustu hennar að nýju.

Um 15. gr.

    Áhersla er lögð á samstarf við aðrar þjónustuaðila en líkur eru á að sumir atvinnuleitendur þurfi á þjónustu annarra aðila að halda samhliða atvinnutengdri endurhæfingu. Á sama hátt og mikilvægt er að aðrir þjónustuaðilar hvetji fólk til að leita sér aðstoðar innan þess kerfis sem lagt er til að verði komið á með frumvarpi þessu er þýðingarmikið að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiðbeini þeim jafnframt um að leita til annarra fagaðila. Mikilvægt er að fólki verði leiðbeint áfram til viðeigandi þjónustustofnana innan heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins og jafnframt að efnt sé til virks samráðs við aðra þá aðila sem eru að aðstoða einstaklinginn með einum eða öðrum hætti.
    Síðar getur niðurstaða ráðgjafa Vinnumálastofnunar orðið sú að útséð er um að einstaklingurinn verði virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Er þá ekki síður mikilvægt að leiðbeina einstaklingnum til Tryggingastofnunar ríkisins þar sem hann getur óskað eftir örorkumati enda þá fullreynt að einstaklingurinn fari í störf hvort sem það er af líkamlegum, andlegum eða félagslegum ástæðum. Getur Tryggingastofnun þá leitað umsagnar til Vinnumálastofnunar um vinnufærni hlutaðeigandi og þau úrræði sem hafa verið reynd. Lögð er sérstök áhersla á samvinnu milli kerfa svo að þjónusta við einstaklinga geti verið samfelld og forðast megi endurtekningar sem bæði hafa í för með sér óþægindi fyrir einstaklinginn og óþarfa kostnað.
    Þá er gert ráð fyrir að einstök greiðslukerfi sem ætlað er að tryggja framfærslu einstaklinga meðan á atvinnuleitinni og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum stendur yfir geti tengt kerfi sitt við árangur vinnumarkaðsaðgerða. Þannig getur ákveðinn hvati falist í því að tengja rétt atvinnuleitanda til fjárhagsaðstoðar úr einstökum greiðslukerfum við þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum í því skyni að tryggja virka þátttöku í úrræðunum. Með þeim hætti er leitast við að auka líkur á árangri vinnumarkaðsaðgerða. Engu síður er gert ráð fyrir að einstök greiðslukerfi ákveði viðeigandi viðurlög í tilvikum þegar einstaklingar sinna ekki vinnumarkaðsúrræðum en unnt er að óska eftir því að starfsfólk Vinnumálastofnunar tilkynni þegar atvinnuleitendur sinna ekki skyldum sínum innan kerfisins. Er þannig gert ráð fyrir að kerfi vinnumarkaðsaðgerða starfi náið með þeim greiðslukerfum sem eru fyrir hendi.

Um 16. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 17. gr. gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 17. gr.

    Gert er áfram ráð fyrir að Vinnumálastofnun haldi uppteknum hætti við að afla upplýsinga um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur frá einstökum landshlutum. Er miðað við að einstakar þjónustustöðvar stofnunarinnar sem og vinnumarkaðsráðin annist þessa upplýsingaöflun á einstökum svæðum.

Um 18. gr.

    Lagt er til að Vinnumálastofnun gefi út skýrslu í byrjun hvers árs um stöðu mála á innlendum vinnumarkaði þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um atvinnuleysi, atvinnuhorfur og mannaflaþörf innan tiltekinna starfsgreina sem og útgáfu atvinnuleyfa til erlendra starfsmanna. Er þetta gert til að tryggja að stjórnvöld hafi nauðsynlega yfirsýn yfir vinnumarkaðinn á hverjum tíma svo að auðveldara sé að bregðast tímanlega við breytingum. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að stofnunin gefi út aðrar skýrslur eða miðli upplýsingum í sambandi við einstök atriði sem varða aðstæður á vinnumarkaði.

Um 19. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 21. gr. gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir og þarfnast ekki skýringar.

Um 20. gr.

    Ákvæðið veitir félagsmálaráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara. Markmiðið með slíkri heimild er að kveðið verði skýrt á um framkvæmd laganna ef nauðsyn ber til.

Um 21. gr.

    Lagt er til að frumvarp þetta taki gildi 1. júlí 2006 en um leið falli úr gildi lög nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir. Er gert ráð fyrir að frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi taki einnig gildi þennan dag.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

    Frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir er í meginatriðum byggt á niðurstöðum nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði árið 2004 og var falið að endurskoða efni laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir. Markmiðið með endurskoðuninni var að stuðla að bættu öryggi fólks í atvinnuleysi og stuðla að því að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
    Í frumvarpinu er lagt til að Vinnumálastofnun annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða. Með vinnumarkaðsaðgerðum er m.a. átt við vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem eru til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda. Frumvarpið gerir ráð fyrir að með breyttu skipulagi verði lögð áhersla á að úrræði stofnunarinnar verði jafnt fyrir þá sem fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, almannatryggingum eða eru án slíkra greiðslna. Að óbreyttu er áfram gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður fjármagni vinnumarkaðsúrræði. Í kjölfar gildistöku laganna er áformað að endurskoða þjónustusamninga og hvers kyns greiðslur úr ríkissjóði og einstökum sjóðum til starfsendurhæfingar til að ná fram markvissum árangri.
    Félagsmálaráðuneyti gerir ráð fyrir 5 m.kr. tímabundnum kostnaði hjá Vinnumálastofnun á árinu 2006 við samhæfingu, einföldun og kerfisbreytingar auk annarra tímabundinna ráðstafana og verður honum mætt af fjárveitingum félagsmálaráðuneytis í fjárlögum 2006.